Heitt tómatsalat
(forréttur)
fyrir 6
8 tómatar
1/2 box kirsuberjatómatar
10 sólþurrkaðir tómatar
1 fennel
2 shallot laukar
2-3 hvítlauksrif
4 vorlaukar
Handfylli af strengjabaunum
Handfylli af ferskri flatblaðssteinselju
Handfylli af ferskum kóríander blöðum
8 blöð af ferskum basil blöðum
1 poki af tilbúnu Alabama salat
Salt og svartur pipar eftir smekkByrjið á því að skera tómatana í fernt og taka kjarnann úr. Skerið síðan tómatbátana í teninga. Skerið kirsuberjatómatana í helminga. Skerið shallotlaukinn í litla teninga. Skerið fennelið í ræmur, sneiðið vorlaukinn í u.þ.b. 2 cm bita. Sneiðið einnig hvítlaukinn.Steikið hvítlaukinn og laukinn því næst saman á pönnu, bætið svo fennelinu út í. Bætið því næst strengjabaununum við ásamt vorlauknum. Setjið að lokum tómatana, kirsuberja- og sólþurrkuðu tómatana ásamt söxuðum kryddjurtunum út í og hrærið. Setjið Alabama salatið í stóra salatskál og hellið síðan heita tómatsalatinu yfir áður en þið berið réttinn fram.

   

************************************

Sólheimalambahryggur (aðalréttur)

fyrir 6

1,3 kg. lambafillet
800 gr. kartöflusmælki
1/2 bolli sojasósa
1 bolli vatn
Salt og pipar eftir smekk
Ólífuolía og smjör til steikingar

Skerið lambafilletið í hæfilega stóra bita. Skerið kartöflurnar í skífur, ca 1 1/2 cm þykkar. Ekki nota enda kartaflanna. Steikið síðan karöflurnar upp úr ólífuolíu og smjöri þar til gullinbrúnar á báðum hliðum.

Steikið lambakjötið á pönnu upp úr ólífuolíu og smjöri (í jöfnu hlutfalli) áður en það er sett inn í ofn.

Kryddið kjötið vel með salti og svörtum pipar á meðan það er að brúnast á pönnunni. Þegar steikingu er lokið og kjötið hefur verið tekið af pönnunni, hellið þá soyasósunni á pönnuna og lofið henni að sjóða örsnöggt ásamt vatninu.

Raðið kjötinu í ofnskúffu og setjið það inní ofn við 160 gráður C í ca. 13 mínútur. Þegar kjötið er tilbúið takið það út úr ofninum og lofið því að hvílast í 10 mínútur áður en það er skorið, og síðan borið fram.

*************************************

  

Linsubaunameðlæti

fyrir 6

150 gr. linsubaunir
1/2 gul papríka
1/2 rauð papríka
100 gr. spergilkál (brokkolí)
1/2 stk. kúrbítur (zúkkíni)
1 poki cashew hnetur
1/2 rauður chili
Þumalputtastærð af fersku engiferi
Ólífuolía til steikingar
Salt eftir smekk

Leggið linsubaunirnar í bleyti í klukkustund. Setjið baunirnar síðan í pott og sjóðið við vægan hita í 15 – 20 mínútur. Setjið salt í pottinn. Kælið því næst baunirnar með köldu rennandi vatni til að stöðva suðuna.

Sneiðið því næst grænmetið niður í hentugar stærðir. Raspið engiferið niður. Steikið grænmetið á pönnu upp úr ólífuolíunni ásamt engiferinu og cashew hnetunum. Saltið og piprið.

Bætið síðan linsubaununum saman við og hrærið allt vel saman áður en rétturinn er borinn fram.


Prentvæn útgáfa