Gratineraður reyktur lax með pipardressingu og salati

fyrir 4

320 gr reyktur lax
Mozzarella ostur, saxaður (má nota venjulegan brauðost)

Laxinn er skorinn í þunnar sneiðar. Sneiðarnar eru lagðar á fjóra hringlaga skammta (u.þ.b. 80 gr á mann) á ofnplötu og ostinum stráð yfir hvern skammt. Hyljið 90% af laxinum og setjið plötuna inn í ofninn. Grillið í u.þ.b. 30 sekúndur til mínútu eða þar til osturinn er bráðnaður. Þessi réttur má einnig borðast kaldur.

Sósa

1 dós sýrður rjómi
2 msk appelsínusafi
svartur pipar eftir smekk

Sýrði rjóminn er pískaður og appelsínusafa hrært saman við. Smakkað til með pipar.

Salat

1 poki klettasalat
1/4 rauðlaukur
1/2 krukka fetaostur
2 msk salthnetur
1 bolli ristaðar hnetur
Skvetta af balsamediki

Laukurinn er skorinn í bita og settur ásamt salatinu, fetaosti, hnetum og balsamediki í plastpoka. Pokanum er lokað með smá lofti í og hristur þangað til allt hefur blandast vel saman. Sett í skál.

Laxinn er settur á miðjan diskinn og salatið með. Sósan sett fallega í kring um laxinn með teskeið, 1 tsk af olífuolíu er sett yfir sósuna til að gefa skemmtilegt útlit.

Með forréttinum mælir Sævar, vínþjónn ársins 2003, með Sonoma County Chardonnay frá E&J Gallo Sonoma. Þetta vín einkennist af þéttum suðrænum ávexti í bland við mjúka rjómakennda ameríska eik; mild ristuð eik.

Aðalréttur

Saltfiskur í kókos

fyrir 4

720 gr saltfiskur
3 msk kókosmjöl
1 msk hveiti
pipar
ólífuolía

Betra er að nota bara þykku stykkin af saltfisknum. Saltfiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita. Kókosmjöli og hveiti er blandað saman og saltfiskbitunum velt upp úr blöndunni. Saltfiskurinn er síðan brúnaður á pönnu og settur í eldfast mót. Pipar stráð yfir á báðar hliðar. Forhitið ofninn í 180 gráður og bakið fiskinn í 5-6 mínútur.

Sósa – Ragú

6 plómutómatar
1/2 stór rauðlaukur
2 hvítlauksrif
1/2 gul paprika
1/2 dl ólífuolía

Tómatarnir eru skornir í litla bita ásamt rauðlauknum og paprikunni. Hvítlaukurinn er saxaður í smátt. Allt sett í pott ásamt olíunni og látið krauma í 5 mínútur. Smakkað til með salti og pipar.

Kartöflumús

400 gr kartöflur
1/2 rauðlaukur
4 hvítlauksrif (eða 3 stór)
1/2 teskeið chili
1/2 teskeið engifer
2 dl rjómi
2 msk söxuð steinselja
salt og pipar

Kartöflurnar eru soðnar, afhýddar og stappaðar í mauk. Hvítlaukurinn er saxaður smátt. Ef græni hlutinn inni í geiranum er tekinn út finnst hvítlaukslyktin ekki eins mikið eftirá.

Laukurinn er skorinn í bita og settur saman við kartöflurnar ásamt hvítlauk, chili og engifer. Rjómanum er bætt út í jafnóðum og allt er hrært saman. Salt og pipar stráð yfir eftir smekk.

Steinseljunni er bætt út í áður en borið er fram.

16 strengjabaunir
Gljáðar á pönnu – lagðar ofan á réttinn til skrauts

Kartöflumúsin er sett á diskinn í gegnum lítið hringlaga kökumót. 2 fiskbitar settir ofan á kartöflumúsina og ragú hringinn í kring. 3-4 strengjabaunir eru lagðar ofan á réttinn til skrauts.

Með þessum rétti mælir Sævar vínþjónn á Hótel Holti með Pata Negra Gran Reserva – Bodegas Los Llanos Valdespénas frá Spáni. Vel samstillt vín, með bjartan þéttan ávöxt og mildan eikarvott.

Eftirréttur

Ananas í karamellu

1 stór ferskur ananas
1 bolli sykur
1 dl rjómi
vanilluís

Ananasinn er afhýddur og kjarninn í miðjunni tekinn út. Ananasinn er skorinn í bita, u.þ.b. 2×2 cm. Sykurinn er bræddur á pönnu og rjómanum bætt út í og látið bráðna samna við vægan hita.Saltlaust smjör brætt út í. Ananasinn er settur út í karmelluna og látin hitna í henni.

6-8 bitar settir í hring á disk og karmellusósu stráð yfir. 1- 2 kúlur vanilluís settar í miðjuna.

Prentvæn útgáfa