Verslun

Nanna Rögnvaldardóttir Matreiðslubóka snillingur

Kryddlegin lambalund með límónum og chili
– fyrir 6

1 væn lamba- eða kindalund
1 msk rauðvínsedik
jómfrúarolía (extra virgin)
1 rautt chilialdin
2 límónur (lime)
nýmalaður pipar
Maldon sjávarsalt
baguettebrauð
salatblöð

Best er að byrja á að kryddleggja lundina í nokkra klukkutíma eða allt að sólarhring í 1 msk. af rauðvínsediki og 1 msk. af olíu, sem blandað er saman, sett í plastpoka ásamt lundinni, bundið fyrir, velt til og frá þar til lundin er þakin leginum, og látið standa í kæli.

Takið svo lundina úr pokanum og strjúkið vel af henni. Skerið hana í 3-4 bita og hvern bita í mjóar ræmur. Setjið í skál. Fræhreinsið chilialdin, saxið og setjið saman við. Rífið börkinn af annarri límónunni yfir og kreistið safann úr þeim báðum (ef þær eru mjög safaríkar ætti þó ein að duga). Hellið 3-4 msk af ólífuolíu yfir, kryddið með nokkuð miklum pipar og dálitlu salti og látið standa í um hálftíma.

Skerið þá sneiðar af brauðinu og dreypið svolítilli olíu á hverja, leggið lítið salatblað ofan á, setjið nokkra bita af kjötinu á hverja sneið og stráið sjávarsalti yfir.

Skinkuvafðir ostabögglar

– fyrir 6

2 Höfðingjar eða brie-ostar
Vænt knippi af ferskum basilíkublöðum
12-16 örþunnar sneiðar af hráskinku

Skerið ostinn í teninga, um 2-2 1/2 cm á kant. Leggið 2 basilíkublöð utan um hvern bita, vefjið skinkusneið utan um og stingið grillteini í gegn; hafið 2-3 böggla á hverjum teini.

Grillið við vægan hita í 2-3 mínútur og snúið oft. Það eiga bara rétt að sjást rendur á skinkunni og osturinn á að mýkjast en ekki bráðna. Berið fram volgt.

Grillað lambalæri

– fyrir 6

1 lambalæri, um 2,2 kg, helst nokkuð vel hangið
6-8 hvítlauksgeirar
2 tsk. þurrkað timjan
1 tsk. þurrkað oregano
2 tsk. paprikuduft
rifinn börkur af einni sítrónu
nýmalaður pipar
salt

Kveikið á grillinu og hitið það vel. Fitusnyrtið lærið e.t.v. dálítið, gerið djúpar raufar í það á nokkrum stöðum með hnífsoddi og stingið hvítlauksgeirum inn í það. Blandið saman timjani, oregano, paprikudufti, sítrónuberki, pipar og salti og núið vel á allt lærið.

Slökkvið á öðrum brennaranum á gasgrilli (ef notað er kolagrill eru kolin færð út til hliðanna og álbakki hafður í miðjunni). Setjið lærið á grillið þar sem ekki er eldur undir og lokið síðan. Grillið lærið í 1 klst og 10 til 30 mínútur eftir stærð og eftir því hve mikið það á að vera grillað (notið kjöthitamæli ef þið eruð ekki viss).

Snúið lærinu tvisvar eða þrisvar en opnið grillið annars sem allra minnst. Ef óskað er eftir dekkri skorpu má færa það yfir eldinn seinustu mínúturnar og fylgjast þá vel með því. Best er að það fái að standa í 25-30 mínútur eftir að það er tekið af grillinu og á meðan má baka brauðið og grilla grænmetið.

Ofnsteiktar kartöflur með hvítlauk og lárviðarlaufi

– fyrir 6

1,5 kg kartöflur, ekki mjög stórar (t.d. Gullauga)
1 dl ólífuolía
6-8 hvítlauksgeirar
6-8 lárviðarlauf
1 tsk þurrkað timjan
nýmalaður pipar
salt

Hitið ofninn í 220 gráður. Þvoið og þerrið kartöflurnar og skerið þær í helminga (mjög litlar kartöflur mega vera heilar, þær stærstu má skera í fjórðunga). Setjið í ofnskúffu.

Afhýðið hvítlauksgeirana og stingið á milli ásamt lárviðarlaufi. Stráið timjani, pipar og salti yfir og setjið í ofninn í 30-35 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru meyrar í gegn og farnar að brúnast vel.

Hrærið einu sinni eða tvisvar í þeim svo þær festist ekki við.

Spænsk papriku-tómatsósa

– fyrir 6

25 g hnetur eða möndlur (t.d. pekanhnetur eða valhnetur)
6 hvítlauksgeirar
6-8 piquillo-paprikur (niðursoðnar í krukku, t.d. frá Svansö)
2 litlir tómatar, vel þroskaðir
1 msk tómatþykkni (paste, t.d. frá Hunts)
1 msk sherry- eða rauðvínsedik
nýmalaður pipar
salt
1 1/2 dl jómfrúarolía
2 msk steinselja, söxuð

Ristið hneturnar á pönnu eða á grillinu þar til þær eru rétt farnar að taka lit. Setjið þær svo í matvinnsluvél eða blandara ásamt hvítlauk, paprikum, tómötum, tómatþykkni, ediki, pipar og salti og látið vélina ganga þar til allt er komið í mauk. Þeytið þá olíunni saman við smátt og smátt. Smakkið og þeytið að lokum steinseljunni saman við.

Timjan-skyrsósa

– fyrir 6

1/2 lítill laukur, skorinn í bita
1 hvítlauksgeiri
dálítið knippi af fersku timjani
300 g hreint KEA-skyr
2-3 tsk ólífuolía
nýmalaður pipar
salt

Setjið lauk, hvítlauk og timjan í matvinnsluvél eða blandara og saxið smátt. Þeytið skyri, olíu, pipar og salti saman við.

Grænt salat með hnetum og blóðappelsínu

– fyrir 6

1 eikarlaufssalathöfuð
eða annað gott salat
ferskar kryddjurtir eftir smekk, t.d. ítölsk steinselja, klettasalat, basilíka eða annað
25 g pekanhnetur eða kasjúhnetur
1 blóðappelsína (má sleppa eða nota venjulega appelsínu)
jómfrúarolía
sjávarsalt og pipar eftir smekk

Rífið niður salatið og kryddjurtirnar og setjið í skál. Hellið jómfrúarolíu yfir eftir smekk. Ristið hneturnar á pönnu eða á grillinu og stráið yfir. Skerið börkinn af blóðappelsínunni, skerið hana í geira og raðið ofan á.

Grillaðir tómatar og kumquat

– fyrir 6

250 g kirsiberjatómatar
12 kumquat
ólífuolía

Þræðið kirsiberjatómata og kumquat á teina, penslið með örlítilli ólífuolíu og grillið við meðalhita þar til þetta er heitt í gegn og hýðið rétt byrjað að springa af tómötunum.

Grillaður vorlaukur

– fyrir 6

2 knippi af vorlauk
olía
Maldon sjávarsalt

Best er að nota “wok” með götum eða einhvers konar bakka eða grind en það má líka grilla laukinn beint á ristinni. Hreinsið hann, fjarlægið ystu blöðin og skerið toppana af. Penslið hann með svolítilli olíu, stráið salti yfir og grillið hann þar til hann er að byrja að brenna.

Grillbrauð

– fyrir 6

3 dl vatn, ylvolgt
1/2 tsk hunang
1 msk ger
hveiti eftir þörfum, helst brauðhveiti
1 tsk salt
1 msk ólífuolía

Setjið vatn, ger og hunang í skál og þegar gerið freyðir er hveiti hrært saman við smátt og smátt ásamt salti og ólífuolíu. Haldið áfram að bæta við hveiti þar til deigið er vel hnoðunarhæft en þó lint.

Hnoðið það vel, mótið það svo í kúlu og látið það lyfta sér í 1-1 1/2 klst, eða þar til það hefur tvöfaldast. Þá er það slegið niður, mótað í kúlu og látið bíða í um 10 mínútur. Þá er því skipt í 10-12 búta og hver bútur flattur út í þunnt, aflangt brauð.

Raðað á heitt grillið, lokað og bakað í nokkrar mínútur á hvorri hlið, eða þar til brauðið hefur blásið vel út og tekið góðan lit.

Grillaður ananas með chili-hunangsgljáa

– fyrir 6

1 stór ananas, vel þroskaður
1/2 rautt chilialdin
2 msk þunnt hunang
regnbogapipar (fimmlit piparblanda)

Skerið ananasinn í 6-8 geira eftir endilöngu og látið blöðin fylgja með. Fræhreinsið chilialdinið og saxið það smátt. Hrærið því saman við hunangið og penslið alla skurðfleti á ananasinum með blöndunni. Malið örlítinn pipar yfir.

Setjið ananasinn á grillið og grillið hann við fremur vægan hita þar til hann er heitur í gegn og rétt farnar að sjást rendur á honum. Berð fram með ástaraldinsósu og hunangsskyrsósu.

Ástaraldinsósa

– fyrir 6

8 ástaraldin (passionfruit)
1 tsk hunang, eða eftir smekk
nokkrir dropar af límónusafa (lime)

Skerið ástaraldinin í tvennt og skafið innihaldið í skál. Hrærið hunanginu saman við og bragðbætið með örlitlum límónusafa.

Hunangsskyrsósa

– fyrir 6

200 g (1 lítil dós) hreint skyr
1-2 msk hunang

Hrærið skyrið með hunanginu og berið það fram með ananasinum.

Vefurinn kokkarnir.is notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á kokkarnir.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur