fbpx

Úr Heima er bezt

­
2804, 2005

Brúðkaups Ella og Hrafnkell í svörtum fötum

= Forréttur =

Sjávarfang með grænmeti og rjómasósu
– fyrir 6

200 gr. Hörpudiskur
200 gr. Surimi (krabbakjöt) (fæst frosið)
200 gr. Humar
1 stk Rauð papríka
2 geirar Stór hvítlaukur
1 askja Sveppir
3 stk Vorlaukar
1 stk Brokkolí
6 stk Smjördeigskörfur
Handfylli Fersk basillauf
Rjómi
Sjávarsalt og ferskur pipar eftir smekk.
Ólífuolía til steikingar

1. Saxið grænmetið niður í hæfilega stóra bita.
2. Merjið saman hvítlauksgeirana ásamt basillaufunum í mortéli.
3. Setjið ólífuolíu á pönnu ásamt mörðu hvítlauksgeirunum og basillaufunum. Bætið síðan saxaða grænmetinum saman við.
4. Mýkið græmetið á pönnunni áður en þið bætið rjómanum saman við.
5. Setjið að lokum sjávarfangið á pönnuna og sjóðið í ca. 2 – 3 mín.
6. Leggið spínat í smjördeigskörfuna og leggið sjávarréttina í.

= Aðalréttur =

1,5 kg Lambafillet
6 stk Bökunarkartöflur
Kúmen eftir smekk
Sjávarsalt og pipar eftir smekk
Ólífuolía

1. Skerið kartöflurnar í tvennt eftir endilöngu. Setið á bökunarplötu
(eða eldfastmót) og látið sléttu hliðina snúa upp. Hellið ólífuolíu yfir áður
en kúmeni er stráð yfir eftir smekk ásamt sjávarsalti og smávegis af ferskum
pipar.
2. Setið í ofn við 180° í um 30-45 mínútur.

Marinering fyrir lambakjötið

4 stk. Stórir hvítlauksgeirar
Rósmarin
Svartur pipar úr kvörn eftir smekk
Ólífuolía

1. Skerið hvítlauksgeirana í tvennt og setjið í skál ásamt ólífuolíu og rósmarín.

3. Leggið kjötið í marineringuna og lofið því að liggja þar í u.þ.b. eina klukkustund.
4. Lokið síðan kjötinu á pönnu og setið inn í ofn í ca. 10 mínútur á 180 gráðu hita.

Sveppasósa
50 gr. ferskir villisveppir (má nota þurrkaða)
1 stk. laukur
2 stk. Kjúklingateningar
½ l Rjómi
1 stk. Piparostur
1 dl. Vatn
1 dl Ólífuolía
Pipar og salt eftir smekk

Sveppirnir eru steiktir ásamt lauknum þar til gumsið er vel svitað því næst er vatnið sett útí og piparosturinn bræddur upp í því. Restinni af hráefninu er síðan bætt útí, rjómanum, kjúklingateningunum og svo er kryddað með salti og pipar eftir smekk hvers og eins.

Grænmetis meðlæti

2 stk. Rauðar paprikur
2 stk. Rauðlaukur
1 stk. Zúkíni
4 stk. Plómutómatar
Salt og svartur pipar eftir smekk

Allt grænmetið er skorið í bita. Grænmetið er steikt og byrjað er á lauknum svo paprikunni og rétt áður en tómatarnir fara út í þá er zúkininu skellt útí og að lokum er tómötunum hent útí og látið malla í 10 mínútur og kryddað til.

= Eftirréttur =

Jarðarber með balsamic ediki og mascarpone osti

4 öskjur Fersk jarðarber
1 1/2 dl Balsamic edik
2 1/2 msk Sykur
3 öskjur Mascarpone ostur
1 msk Rjómi
3 tsk Vanillusykur

1. Skerið jarðaberin í helminga og setjið í skál.
2. Hellið balsamedikinni yfir og stráið sykrinum yfir. Hrærið vel. Látið liggja í 1 klukkustund.
3. Setjið mascarpone ostinn í hrærivélaskál og hrærið vanillusykrinum og rjómanum varlega saman við. Smakkið til

Prentvæn útgáfa

2804, 2005

Guðjón Bergmann og Jóhanna Bóel

Brauðbollur úr grófu speltmjöli

 
(Guðjón og Jóhanna notuðu uppskrift úr bókinni Rétt matreiðsla fyrir þinn blóðflokk)

1 1/2 bolli volgt vatn
1/4 bolli sojaduft
1/3 bolli ólífuolía
1 1/2 tesk. salt
1 matsk. hrásykur
2 matsk.þurrger
3 bollar sigtað speltmjöl
2 bollar gróft speltmjöl
1 egg þeytt með 1 matsk. af vatni
sesamfræ
Hnoðið saman í skál og látið lyfta sér tvisvar, fyrst í 45-55 mín og síðan í 45 mín.
Bakið í 20 mín við 220°c.

Rótargrænmeti með kókosmjólk og engifer

Rótargrænmeti að eigin vali
Engifer
Kókosmjólk
Saxið rótargrænmetið í hæfilega stóra bita. Því næst er engifer rifinn og settur á pönnu með olíu. Steikið grænmetið þar til það hefur fengið fallegan lit. Bætið við hálfum lítra af kókosmjólk og tveimur teskeiðum af Garam Masala.

Ávextir í hungangssósu

 

3 matsk. gott hunang
2 matsk. nýpressaður sítrónusafi
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
300 gr þurrkaðar gráfíkjur lífrænt ræktaðar
2 perur frekar stórar
150-200 gr græn vínber

Setjið ávextina saman í skál. Blandið hunanginu, sítrónusafanum og rifna sítrónuberkinum saman í aðra skál og hellið svo yfir ávextina. Berið fram með þeyttum jurtarjóma

   

Prentvæn útgáfa

2804, 2005

Einar Ágúst og Guðný Helga


Sushi fyrir 6

2 pakkar sushi hrísgrjón
2 pakkar nori blöð (grænn þari)
Wasabi (hægt er að fá tilbúið wasabi í túpu eða duftformi sem blandað er saman við vatn
Sojasósa
Sushi engifer (fæst í krukku)
Það sjávarfang og grænmeti sem hugurinn girnist, t.d.
Túnfiskur
Lúða
Lax
Risarækja, þrædd upp á teina og soðin í smá stund (má líka vera hrá)
Púrrulaukur
Agúrka
Lárpera
Gulrætur
Sushimottur (til þess að rúlla upp)

  
Japanskt hrísgrjónaedik

1 lítri hrísgrjónaedik
700 gr sykur
225 gr salt

Hrísgrjónaediki, sykri og salti er blandað saman og látið liggja í minnst 4 klukkustundir. Það er nóg að nota rúmlega 300 ml af blöndunni fyrir einn pakka af hrísgrjónum. Blöndunni er blandað saman við hrísgrjónin þegar þau hafa kólnað. Passið að hrísgrjónin verði ekki of blaut.

Þegar hrísgrjónin eru tilbúin og búið er að blanda hrísgrjónaedikinu saman við er ekkert annað eftir en að raða hrísgrjónum á nori blöðin ásamt meðlætinu og rúlla blöðunum upp. Einnig er hægt að búa til sushi bita sem eru þá ekki með þaranum. Þetta er svo borið fram með engiferi, sojasósu og wasabi. Wasabi er blandað í sosjasósuna – best að prófa sig varlega áfram því það er mjög sterkt. Bitunum er svo dýft í sósuna og gott er að fá sér engifer á milli til að hreinsa bragðlaukana.

*******************************
 
Exótískt ávaxtasalat með mintujógúrtsósu

2 ástríðuávextir
1 ananas
1 mangó
1/2 Cantaloupe melóna
2 blóðappelsínur (eða venjulegar ef blóðappelsínur eru ekki til)
1 lítil dós hrein jógúrt
1 búnt mynta

Afhýðið ávextina og skerið í jafna, fallega bita. Setið saman í skál. Mintan er grófsöxuð og sett saman við jógúrtina. Látið standa í kæli í eina klukkustund áður en sósunni er hellt yfir salatið og það er borið fram.

Prentvæn útgáfa

2804, 2005

Sjón og Ásgerður

 

Innbakaður fashani og kjúklingur með kanil

fyrir 6

2 hótellaukar

1 fashani

1 kjúklingur

2 tsk ferskur engifer

1 msk kanill

Hálf handfylli möndlur

Góð handfylli möndluflögur

Búnt af steinselju

Búnt af kóríander

2 pakkar fílódeig

Flórsykur sem stráð er yfir að lokum

Ólífuolía eftir smekk

Eggjahræra

6 egg

2 góðar ausur af kjúklingasoði.

Skerið fashanann og kjúklinginn í fjóra hluta. Skerið niður með lærunum þannig að þið fáið bringurnar og lærin heil. Þrífið vel. Skerið niður laukinn og „svitið” hann í stórum potti. Setjið að því loknu hálfan lítra af vatni saman við. Rífið engiferinn á rifbretti og setjið út í pottinn. Stráið u.þ.b. matskeið af kanil yfir fashanann og kjúklinginn áður en hann er settur í pottinn. Látið fashanann og kjúklinginn sjóða í 25 mínútur.

Takið möndlurnar og möndluflögurnar og hitið á pönnu með ólífuolíu. Setið pönnuna síðan inn í 160 gráðu heitan ofn í 10 mínútur. Veiðið kjúklinginn upp þegar hann er soðinn, setjið á fat og snöggkælið með því að setja inn í frysti í 10 mínútur.

Þegar kjúklingur hefur aðeins kólnað takið þá kjötið af beinunum og setjið í skál. Notið hringlaga eldfast mót og smyrjið það að innan með ólífuolíu. Leggið fílódeigsblöð í botninn og pensið yfir með ólífuolíu. Endurtakið fjórum sinnum.

Fyllið því næst botninn með fashana- og kjúklingakjötinu. Vætið síðan kjötið með örlitlum hluta af soðinu. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið tvöfalt lag af fílódeigi yfir áður en næsta kjötlag er sett í. Haldið þannig áfram koll af kolli þangað til mótið er fullt. Munið að pensla alltaf fílódeigið áður en næsta lag er sett ofan á. Setið 6 egg á pönnu og búið til eggjahræru. Bætið fashanasoðinu og kjúklingnum saman við á meðan hrært er. Saltið og piprið eggjahræruna eftir smekk. Setið síðan eggjahræruna efst í eldfasta mótið, setið tvöfalt fílódeig yfir og pensið vel með ólífuolíu. Setjið því næst brúnuðu möndlurnar á (bæði möndluflögur og möndlur). Lokið með því að setja fílódeigið yfir og penslið að lokum með ólífuolíu.

Setið inn í ofn við 150 gráður og bakið þar til fílódeigið er orðið gyllt að utan. Stráið að lokum flórsykri yfir. Haldið heitu inni í ofni þar til þetta er borið fram.

************************

 

Salat
6 stórar gulrætur

Handfylli af steinselju

Rífið gulræturnar niður með rifjárni.

Saxið steinseljuna.

Salatsósa

2 appelsínur (safinn úr þeim)

2 tsk kanill

2 msk flórsykur

Kreistið safann úr appelsínunum í skál. Bætið síðan kanil og flórsykri út í. Hrærið vel.

*************************

Einstakt myntute

Kínverskt grænt te (Special gun powder)

Mynta

Setjið 3 msk af kínvesku grænu te í tepotti. Setjið 2 ausur af heitu vatni í tepottinn og leyfið því standa í smástund. Hellið því næst vatninu af og setjið nokkur myntulauf ofan í tepottinn. Hellið síðan heitu vatni aftur ofan í pottinn. Berið fram með myntulauf í tebollunum.

*************************

Skötuselur með kúskús, rúsínum, hnetum og kryddi

fyrir 6

  

1 kg Skötuselur

1 hótellaukur

Handfylli af steinselju

6 tómatar

1 bolli rúsínur

1 poki kasjúhnetur (u.þ.b. 150 gr)

1 gul papríka

1 rauð papríka

1/2 lítri vatn (til suðu)

Sjávarsalt eftir smekk

2 msk grænmetiskraftur út í vatn

1 pakki kúskús

Skerið niður lauk og setjið á pönnu. Svitið laukinn vel í ólífuolíu. Skerið því næst niður papríkurnar og mýkið í potti með ólífuolíu. Tómatarnir koma næstir, skerið þá niður og setjið með paprikunum. Bætið lauknum við. Setið vatn út í pottinn og lofið þessu að sjóða í u.þ.b. 5 mínútur.

Setið því næst skötuselinn (sem búið er að skera í stykki) ofan á og sjóðið. Saltið vel yfir með sjávarsalti og piprið einnig með svörtum pipar. Setjið kúskúsinn út í grænmetissoðið. Setið lok á pottinn og slökkvið undir.

Hellið rúsínunum á pönnu með ólífuolíu. Látið rúsínurnar “poppa”. Takið af þegar þær eru tilbúnar. Setið því næst kasjúhneturnar á pönnu með smá ólífuolíu og brúnið þær. Setið kúskúsinn á stórt fat. Raðið því næst paprikunni, lauknum og tómötunum ofan á. Síðan er skötuselurinn settur ofan á. Stráið að lokum rúsínunum og kasjúhnetunum yfir og saxaðri steinseljunni efst.

*************************

Appelsínur með kanil og saffran
fyrir 6

6 appelsínur

1/2 tsk saffran

1 dl kalt vatn

1 msk kanill

Afhýðið appelsínurnar, skerið í sneiðar og raðið á fat. Stráið saffraninu út í vatnið. Leyfið þessu að blandast vel saman. Kælið. Hellið yfir appelsínurnar þegar blandan er orðin köld. Stráið að lokum kanil yfir.

Prentvæn útgáfa

2804, 2005

Þormar og Tine

Danskar eplaskífur

u.þ.b. 25 stykki

  

125 gr nýmjólk
125 gr léttsúrmjólk
2 egg (aðskiljið rauðu frá hvítu)
25 gr sykur
2 tsk lyftiduft
250 gr hveiti
Salt eftir smekk
2 tsk kardimommuduft (ekki nota dropa)
Klípa af ósöltuðu smjör

Setjið nýmjólkina, léttsúrmjólkina, eggjarauðurnar, sykurinn, lyftiduftið, hveitið, saltið og kardimommuduftið í skál og hrærið saman.

Þeytið eggjahvíturnar vel þar til þær eru orðnar stífar og blandið síðan varlega saman við hitt hráefnið.

Hitið eplaskífupönnuna vel. Setjið litla klípu af smjöri í hvert hólf pönnunnar áður en deigið er sett í það. Mikilvægt er að baka eplaskífurnar við meðalhita. Þegar deigið er aðeins farið að stífna neðst við pönnuna er hægt að snúa eplaskífunum við í hverju hólfi. Gætið þess að baka þær ekki of mikið áður en þeim er snúið við í fyrstu umferð, þannig að þær nái að verða hringlaga. Setjið alltaf smáklípu af smjöri í hvert hólf áður en næsta umferð af deigi er sett í þau.

Þegar búið er að baka allar eplaskífurnar stráið þá yfir þær flórsykri rétt áður en þær eru bornar fram. Við mælum með gómsætri sólberjasultu með þeim.

**********

Brúnar smákökur / Brunkager

140 gr síróp
200 gr sykur
200 gr smjör
400 gr hveiti
7.5 gr hjartarsalt
15 gr brúnkökukrydd
75 gr muldar heslihnetur

Hitið sírópið og sykurinn saman í potti. Gætið þess að þetta sjóði ekki.

Brytjið smjörið í bita og setjið út í pottinn.

Sigtið því næst hveitið og bætið því út í pottinn. Bætið síðan hjartarsaltinu og brúnkökukryddinu saman við.

Bætið að lokum muldu heslihnetunum saman við.

Setjið deigið í ferkantað form (gott að hafa smjörpappír undir) og kælið í ísskáp í u.þ.b. 3-4 klukkutíma, eða þar til það er orðið vel kalt.

Þegar deigið hefur kólnað, mótið það í ferkantaðan renning. Skerið það síðan í þunnar sneiðar. Raðið sneiðunum á bökurnarplötu og bakið í 180-200°c heitum ofni í u.þ.b. 5 – 8 mínútur. Takið þær út úr ofninum þegar kökurnar eru orðnar gullinbrúnar.

**********

Dönsk jólaglögg

50 gr kanilstangir
50 gr heil kardimomma
50 gr negulnaglar (notið ekki duft)
1/2 dl sykur
1 flaska rauðvín
3 dl vatn
Handfylli rúsínur
Handfylli möndlur

Kryddið er sett í lítinn pott ásamt vatninu og það er látið sjóða saman í 10 mínútur.

Sigtið því næst kryddblönduna og setjið í stóran pott. Bætið sykrinum og rauðvíninu við.

Hitið upp varlega. Athugið að þetta má alls ekki sjóða!

Bætið rúsínunum og möndlunum saman við glöggið þegar það er orðið heitt.

Gott er að leggja rúsínurnar og möndlurnar í koníak eða romm deginum áður en þær eru settar í jólaglöggið.

**********

Anís súkkulaðikonfekt

450 gr 70% Síríus súkkulaði
250 gr rjómi
1 stk vanillustöng
35 gr stjörnuanís (eða 35 gr kanilstangir)
Cadbury´s kakó
Brætt 70% Síríus súkkúlaði til hjúpunar

Brytið súkkulaðið vel niður og setjið það í skál.

Setjið rjómann, vanillustöngina og stjörnuanísinn saman í lítinn pott og hitið upp.

Sigtið blönduna og hrærið henni mjög varlega saman við súkkulaðið þar til súkkulaðið hefur bráðnað.

Kælið í ísskáp í u.þ.b. klukkustund, eða þar til hægt er að móta það.

Setjið blönduna í sprautupoka þegar hún er orðið köld. Sprautið henni síðan á bökunarpappírinn í smáa dropa. Kælið.

Takið dropana af bökunarpappírnum og veltið þeim upp úr brædda súkkulaðinu. Veltið síðan dropunum síðan strax upp úr kakóinu.

 

Marsípan konfekt

1 kg hreint marsípan frá Anton Berg

200 gr sykur

70% Síríus súkkulaði

Blandið marsipaninu og sykrinum vel saman í hrærivél. Gott er að setja í það smáslettu af sherríi, koníaki eða rommi eftir smekk.

Rúllið massanum í lengju sem þið skerið síðan í bita. Úr bitunum eru síðan búnar til kúlur. Best er að lofa kúlunum síðan að bíða í eina nótt á eldhúsborðinu með plastfilmu yfir þeim.

Dýfið kúlunum ofan í brætt súkkulaðið og veltið þeim síðan upp úr flórsykri.

Prentvæn útgáfa

2804, 2005

Birgitta Haukdal og Jóhann Backman

Fiskispjót á austurlenska vísu

fyrir 6

180 gr túnfiskur
180 gr risarækjur
180 gr humar
180 gr skötuselur
1 rauður chili (gætið þess að fræhreinsa hann)
Þumall af engifer
2 rif hvítlaukur
Handfylli steinselja
1 sítróna (safinn úr henni)
1 límóna (safinn úr henni)
1/2 bolli ólífuolía
Grillpinnar

1 bolli kúskús
1 bolli vatn
1/2 kúrbítur
1 rauðlaukur
Ólífuolía til steikingar og í kúskús

Annað meðlæti: Klettasalat

Skerið fiskinn í litla bita og þræðið upp á grillpinna.

Saxið niður hvítlauk, engifer og chili. Setjið í skál ásamt 1/2 bolla af ólífuolíu og safanum úr sítrónunni og límónunni. Saxið einnig steinseljuna niður og bætið við. Hrærið vel saman og hellið síðan yfir fiskteinanna og lofið þeim að marinerast í smástund.

Snöggsteikið síðan upp úr góðri ólífuolíu á pönnu, u.þ.b. 1 mínútu á hvorri hlið.

********************

Innbakaðar nautalundir Wellington

1200 – 1500 gr nautalundir
Smjördeig
1 egg til penslunar

Duxelles

1 askja venjulegir Flúðasveppir
2 Portobello sveppir
Handfylli brúnir Flúðasveppir
1 stór laukur
3 shallot laukar
2 dl rauðvín
1/2 tsk nautakraftur
2 bollar brauðrasp
Salt og pipar eftir smekk

Forsteikið nautalundina upp úr ólífuolíu á pönnu.

Saxið niður laukinn og sveppina. Byrjið á að steikja laukinn upp úr ólífuolíu í góðum potti. Bætið síðan sveppunum við. Saltið og piprið. Setjið rauðvínið og nautakraftinn í og látið krauma í 5 mínútur. Bætið síðan brauðraspinum saman við og látið standa á meðan smjördegið er flatt út. (Takið pottinn af hellunni).

Smyrjið bökunarplötu vel með ólífuolíu. Fletjið út hluta af deginu, nóg til þess að setja nautalundina ofan á það. Setjið síðan nautalundina ofan á. Setjið því næst Duxelle fyllinguna ofan á nautalundina og afganginn af flatta smjördeginu ofan á. Gætið þess að hvergi sjáist í nautalundina.

Penslið yfir með egginu. Gott er að pensla samskeytin vel. Setjið inn í heitan ofn í 18 mín. við 180°C.

********************

Strengjabaunir (meðlæti)

720 gr Strengjabaunir

Strengjabaunirnar eru léttsteiktar upp úr ólífuolíu, saltaðar og pipraðar.

********************

Villisveppasósa

Safinn af nautalundinni þegar hún var steikt á pönnunni.
5 dl vatn
1 dós villisveppir
1 tsk nautakraftur
2 dl rjómi
1 dl portvín
30 gr smjör
2 litlar trufflur (jarðsveppir)

Setjið vatnið í pott ásamt soðinu og nautakraftinum. Bætið villisveppunum út í. Látið sjóða í 15 mínútur.

Sigtið villisveppina frá. Látið krauma og bætið síðan rjómanum við. Því næst fer portvíníð út í. Smjörið er síðan skorið í litla bita og sett saman við til þess að þykkja sósuna.

Að lokum eru trufflurnar saxaðar smátt og settar saman við.

********************


Súkkulaðikaka A la Birgitta

200 gr ósaltað smjör
180 gr 70% Síríus súkkulaði
180 gr hveiti
250 gr sykur
4 egg
4 eggjarauður

Súkkulaðið og smjörið er brætt saman yfir vatnsbaði. Því næst er hveitinu bætt út í, síðan sykrinum og að lokum eggjunum og eggjarauðunum. Blandið varlega saman.

Setjið í lítil muffinsmót og bakið í u.þ.b. 5 mín. Við 170°C.

Ómótstæðilega hindberjasósan

200 gr hindber, fersk eða frosin
1/2 dl vatn (ef berin eru fersk, annars ekki)
75 gr sykur
75gr rauðvín
Börkur af einni sítrónu

Rauðvínið, sykurinn og sítrónubörkurinn er sett saman í pott. Þegar suðan kemur upp látið þá hindberin út í. Látið sjóða niður, við frekar vægan hita, þar til sósan fer að þykkna.

Sigtið í skál og kælið áður en hún er borin fram.

Prentvæn útgáfa

Vefurinn kokkarnir.is notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á kokkarnir.is

• CookieConsent


Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur